Um Al-Anon lesefnið

 
Allt frá stofnun 1951 hafa Al-Anon fjölskyldudeildanna gefið út meira 100 bækur og bæklingar í einum tilgangi: að hjálpa fjölskyldum og vinum að ná bata frá áhrifunum af drykkju annarrar manneskju. Bækur og bæklingar geta styrkt bata okkar en það kemur ekki í staðinn fyrir þá hjálp sem fæst á Al-Anon fundum og þann bata sem gerist þegar bataleiðinni í heild er beitt. Skilningur og virkni Al-Anon lesefnis er mest þegar það er notað í sameiningu með öðrum verkfærum bataleiðarinnar, s.s. fundarsókn.

 

Við vekjum líka athygli á Hlekknum, veftímariti Al-Anon á Íslandi. Þar er að finna reynslusögur sem félagar hafa sent inn. Allir sem reynt hafa Al-Anon bataleiðina geta sent inn sögu sína og þannig deilt með okkur hinum reynslu sinni, styrk og von. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að Hlekknum og fá senda tilkynningu í hvert sinn sem nýju efni er bætt við. Sendu okkur þína reynslusögu á hlekkurinn@al-anon.is.
 

Hvernig get ég eignast lesefni?

 

Lesefni er oft selt á Al-Anon fundum. Auk þess er hægt er að fara á skrifstofu samtakanna á opnunartíma og kaupa lesefni gegn staðgreiðslu (debet eða kredit). Félagar geta líka beðið bókaveru sinnar deildar að vera með ákveðið lesefni til sölu og þá geta þeir keypt það á sínum reglulega fundi. Einnig er hægt að panta lesefni með tölvupósti (al-anon@al-anon.is) eða með því að fylla út pöntunarform hér á vefsíðunni.

 

Ef þið hafið spurningar um lesefnið, þá má senda þær á al-anon@al-anon.is eða hlekkurinn@al-anon.is.

 

Skoða lesefni til sölu

 

Fyrir deildirnar: Sækja verðlista (PDF) til að prenta.

 


 

Við mælum með...

 

Kynning á nýjustu Al-Anon bókinni á íslensku:

Al-Anon leiðin - fyrir fjölskyldur og vini alkóhólista  (B-22)

Bókin kom í fyrst skipti út á íslensku í Mars 2012 og hefur verið mjög vinsæl. Hún fjallar á aðgengilegan og yfirgripsmikinn hátt um undirstöðuþætti bataleiðarinnar og er því tilvalin fyrir nýliða. Í bókinni er stuttar en hnitmiðaðar lýsingar á Sporunum, Erfðavenjunum og Þjónustuhugtökunum sem og slagorðunum. Bókin inniheldur auk þess reynslusögur frá félögum. 

Kilja með atriðisorðaskrá, 416 síður. Verð kr. 5.800. Pöntunarnúmer: B-22.

Mig langar að panta þessa bók. Hvernig fer ég að?

 

Opnaðu pöntunarformið og skráðu þar nafn og númer bókar ásamt

upplýsingum um viðtakanda.

 

 

Sýnishorn úr KAFLA 6

 

 

Fjölskyldusjúkdómurinn alkóhólismi

 

Okkar þáttur

 

Við byrjum að vakna til vitundar með því að fræðast um fjölskyldusjúkdóminn alkóhólisma. Allir sem eiga í alkóhólísku sambandi, jafnt vinir, vinnufélagar, fjölskyldumeðlimir sem og alkóhólistinn sjálfur gegna sínu hlutverki í gangverki þessa sjúkdóms. Ef eitthvað á að breytast verðum við að reyna að átta okkur á því hver þáttur okkar hefur verið.
 
Almennt má segja að alkóhólistar aðhafist og við sem erum í tengslum við þá bregðumst við. Virkur alkóhólisti verður drukkinn, hagar sér á fáránlegan eða óábyrgan hátt og dregur að sér alla athyglina. Þeir sem í kringum hann eru bregðast við drykkjunni og afleiðingum hennar. Drukkinn alkóhólisti hefur ekki áhyggjur af þeim vandamálum sem gerðir hans valda; það sjá aðstandendur hans um. Við teljum að við verðum að axla ábyrgðina á því að gera fyrir alkóhólistann það sem hann virðist ófær eða áhugalaus um að gera fyrir sig sjálfur.

 

Við byrjum að vakna til vitundar með því að fræðast um fjölskyldusjúkdóminn alkóhólisma. Allir sem eiga í alkóhólísku sambandi, jafnt vinir, vinnufélagar, fjölskyldumeðlimir sem og alkóhólistinn sjálfur gegna sínu hlutverki í gangverki þessa sjúkdóms. Ef eitthvað á að breytast verðum við að reyna að átta okkur á því hver þáttur okkar hefur verið.

 

Almennt má segja að alkóhólistar aðhafist og við sem erum í tengslum við þá bregðumst við. Virkur alkóhólisti verður drukkinn, hagar sér á fáránlegan eða óábyrgan hátt og dregur að sér alla athyglina. Þeir sem í kringum hann eru bregðast við drykkjunni og afleiðingum hennar. Drukkinn alkóhólisti hefur ekki áhyggjur af þeim vandamálum sem gerðir hans valda; það sjá aðstandendur hans um. Við teljum að við verðum að axla ábyrgðina á því að gera fyrir alkóhólistann það sem hann virðist ófær eða áhugalaus um að gera fyrir sig sjálfur.

 

Í fyrstu eru mörg okkar virkilega áhyggjufull og er umhugað um það eitt að hjálpa ættingja eða vini sem líður greinilega ekki vel. En eftir því sem á líður og ástandið versnar æ meir hættum við að gera okkur grein fyrir því að við eigum val í stöðunni. Í raun voru valkostir sumra okkar ákaflega takmarkaðir. Þeim okkar sem ólust upp við alkóhólisma eða hafa orðið fyrir ofbeldi kann að hafa fundist þau neydd til að sjá um ýmislegt fyrir hönd alkóhólistans til þess að tryggja eigið öryggi. Á endanum hefur flestum okkar fundist við skuldbundin að koma til hjálpar, hvort sem við vildum það sjálf eður ei, jafnvel í þeim tilvikum þegar enga brýna neyð hefur borið til. Alkóhólistinn verður æ meira ósjálfbjarga. Eftir nokkra hríð er okkur fyrirmunað að láta hann sofa af sér einn vinnudaginn enn án þess að hringja og tilkynna að hann sé veikur eða hunsa enn einu sinni tilkynningar um innistæðulausar færslur. Það fer að verða betra að sitja heima heldur en hætta enn einu sinni á niðurlægingu á almannafæri. Og mörg okkar þola ekki spennuna sem því fylgir að bíða þess að afleiðingar drykkjunnar komi í ljós; okkur finnst við vera tilneydd að grípa inn í.

 

Alkóhólistar aðhafast og við bregðumst við. Enginn getur sagt alkóhólistanum neitt – hann, eða hún, ræður förinni í einu og öllu. Alkóhólið ýtir undir og ýkir sjálfstraust og vellíðan alkóhólistans og fær hann til að haga sér eins og lítinn guð sem ávallt hefur svör á reiðum höndum. Um leið kemst hann í æ meiri mótsögn við sjálfan sig. Við bregðumst við með því að rífast og reyna að fá hann til að horfa á hlutina af meira raunsæi. Okkur verður lífsnauðsynlegt að sanna að við höfum rétt fyrir okkur. Við höldum áfram að réttlæta afstöðu okkar eftir því sem fram líða stundir en ofsi alkóhólistans kemur okkur samt til að efast um okkur sjálf og skynjun okkar á veruleikanum. Ef alkóhólistinn segir að drykkjan sé okkur að kenna vegna þess að við séum of hávær eða óhlýðin finnst okkur við vera nauðbeygð til að vera yfirmáta hljóðlát og hlýðin jafnt að nóttu sem degi, burtséð frá því hvað það kann að kosta okkur. Með tímanum verðum við óöruggari um okkur eftir því sem alkóhólistinn virðist öruggari með sig. Við förum að samsinna því sem sagt er jafnvel þótt við vitum að það sé rangt. Við gerum hvaðeina sem af okkur er krafist til þess að forðast ágreining, því við vitum að okkur tekst hvort sem er aldrei að hafa betur í rifrildum né sannfæra alkóhólistann um að við höfum á réttu að standa. Við töpum hæfileikanum til að segja „nei.“

 

Sama gildir þegar alkóhólistarnir í lífi okkar gefa loforð sem þeir geta ekki staðið við. Þeir lofa því til dæmis að missa ekki framar af fótboltaleik hjá krökkunum, viðskiptafundi eða stefnumóti á veitingahúsi. Þeir sverja að þeir muni ekki verða fullir aftur, vera að heiman alla nóttina, né verða ofbeldisfullir. Eða þá að þeir lofa að beita viljastyrk. Þeir skipta yfir í bjór í þeirri trú að hann hafi ekki jafn mikið vald yfir þeim og sterkt vín. Eða fjarlægja allt vín af heimilinu, til þess eins að sjúkdómurinn knýi þá til að til að finna eitthvað áfengt og láta sig hafa það að drekka spritt eða hóstasaft. Og við bregðumst við, enn og aftur. Við gleymum þeim hundruðum skipta sem ekki hefur verið staðið við gefin loforð og trúum því að alkóhólistinn geti í raun og veru stjórnað drykkju sinni. Við ákveðum að héðan í frá verði allt öðruvísi en áður – og betra! Við afneitum því sem reynslan hefur kennt okkur og treystum á þessi nýju loforð af öllu hjarta. Við komum okkur í þá aðstöðu að verða nær óhjákvæmilega fyrir vonbrigðum. Og þegar alkóhólistanum tekst ekki að stjórna alkóhólismanum, sjúkdómi sem er alls ekki á hans valdi að ná stjórn á, verðum við miður okkar og fyllumst gremju og bræði. Við sjáum okkur sjálf sem hjálparvana fórnarlömb og okkur yfirsést að við höfum gefið kost á okkur í það hlutverk með því að velja að trúa af öllu hjarta á það sem við máttum vita af reynslunni að myndi tæplega geta staðist.

 

Þau okkar sem hafa ekki verið samvistum við alkóhólista í mörg ár geta samt sem áður haldið áfram að bregðast við alkóhólísku hegðunarmynstri. Lágt sjálfsmat, afleiðing fyrri mistaka og misnotkunar eða vanrækslu viðhelst óbreytt. Við leitum til fólks sem ekki er til staðar fyrir okkur eftir þeirri ást og athygli sem okkur hlotnaðist ekki í fortíðinni. Við forðumst árekstra en nú við vinnuveitendur, aðra ættingja eða fólk í valdastöðum, í stað alkóhólistans áður. Eða við leitum uppi ágreining í þeirri trú að sókn sé besta vörnin. Ef við skynjum að átök séu framundan leiðum við athygli fólks að öðru og efnum til rifrildis um einhver önnur mál. Mörg okkar eru svo vön að lifa við stöðuga ringulreið og hættuástand að við vitum ekki hvað við eigum af okkur að gera þegar allt er með kyrrum kjörum. Afleiðingarnar eru þær að þegar allt gengur vel völdum við uppnámi og eyðileggjum þannig fyrir okkur sjálfum. Það veldur okkur vissulega vanlíðan en að minnsta kosti vitum við hvernig við eigum að haga okkur í slíkum kringumstæðum. Við getum líka haldið áfram þráhyggjuhegðun af ýmsu tagi, án þess að hafa hugmynd um hvað kveikir hana með okkur. Aðferðirnar sem við þróuðum til að komast af á meðan við vorum í návígi við sjúkdóminn eru orðnar að lífsmáta. Hugsanlega hefur það aldrei hvarflað að okkur að hægt væri að lifa lífinu á nokkurn annan veg.

 

Þetta mynstur viðhelst einnig þótt alkóhólistinn verði allsgáður. Mörg okkar hafa séð ástvini sem eru hættir að drekka fara á „þurrafyllirí“ en það þýðir að þeir virðast haga sér um tíma á nákvæmlega sama hátt og á meðan þeir voru virkir í drykkjunni. Að sjálfsögðu fara mörg okkar um leið ofan í sömu gömlu hjólförin. Jafnvel þótt ástvinur okkar sé til fyrirmyndar á batagöngu sinni getur óttinn um að hann byrji að drekka á ný, löngun okkar til að stýra bataferlinu, óleyst ágreiningsmál frá drykkjuárunum og lífsstíls- eða persónuleikabreytingar samhliða batanum kallað fram óheilbrigð viðbrögð hjá okkur sem er annt um alkóhólista á batavegi. Sjúkdómurinn og áhrif hans hverfa ekki þótt alkóhólistinn hætti að drekka. Ef við, vinir og ættingjar alkóhólista, kjósum ekki að leita okkur bata mun gangverk sjúkdómsins halda áfram að ráða ríkjum í samböndum okkar.

 

Al-Anon Leiðin (B-22), bls. 45-48

 

Birt með góðfúslegu leyfi Al-Anon Inc.

© Al-Anon Family Group Headquarters. All Rights Reserved.


Öll réttindi áskilin. Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti, vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram, á nokkru formi eða með nokkurri aðferð (rafrænni, vélrænni, með ljósritun, upptöku eða á annan hátt), án þess að geta heimilda www.al-anon.is.

Al-Anon samtökin á Íslandi©